ELF Project

Markmið verkefnis

Markmið ELF verkefnisins er að útbúa tæki til að læra, kenna og deila þekkingu í gegnum útinám. Nemendur takast á við viðfangsefni tengd sjálfbærni og hnattrænni hlýnun í gegnum menntun í náttúruvísindum og landfræðilegar upplýsingar.

Kennarar og nemendur efla skapandi og gagnrýna hugsun og ELF hvetur bæði nemendur og kennara til að flétta útivist inn í nám og kennslu.

Afurðir

Afurðir verkefnisins eru vefsíða og smáforrit sem nemendur og kennarar geta notað til að útbúa leiki og leiðir sem gera þeim kleift að takast á við fyrirbæri í eigin nærumhverfi.

Á vefsíðunni verður hægt að setja upp gagnvirka leiki í nærumhverfinu þar sem álfar og tröll veita nemendum upplýsingar og leiðbeiningar. Vefsíðan styður við lærdómsmarkmið ELF verkefnisins og auðveldar kennurum og nemendum að búa til leiki og leiðir byggða á landfræðilegum upplýsingum í þeirra nærumhverfi.

Snjallforritið er einfalt í notkun fyrir nemendur og er gagnlegt tæki til að styðja við útinám. Gagnvirkir spurningaleikir í forritinu tryggja sjálfbæran lærdóm nemenda og hjálpa þeim að styrkja færni sína. Þar er líka að finna myndbönd og kennsluefni sem opnast þegar nemendur mæta á fyrir fram skilgreinda staði.

Samstarf

Creatrix ehf er íslenskt fyrirtæki. Okkar helstu verkefni eru verkefnastjórnun og þróunarvinna í menntageiranum, menningarstarfsemi og nýsköpun. Við höfum reynslu af því að starfa með sveitarfélögum og menntastofnunum á öllum skólastigum, frá leikskólastigi upp á háskólastig.

Creatrix hefur unnið að verkefnum fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og styður við frumkvöðla og listamenn. Fyrirtækið var stofnað árið 2016 en eigandinn hefur tuttugu ára reynslu úr geiranum.

Djúpavogsskóli er íslenskur grunnskóli og eru nemendur á aldrinum 6-16 ára. Skólinn er staðsettur á Djúpavogi á Austurlandi, og staðsetning skólans og fjarlægð frá öðrum þéttbýliskjörnum gera það að verkum að börn og fjölskyldur þeirra búa við skert tækifæri. Skólinn er eini CittáSlow skólinn á Íslandi og þar er lögð sérstök áhersla á umhverfisfræðslu og heilbrigðan lífsstíl. Sögur segja að álfar og tröll búi í fjöllum og steinum umhverfis Djúpavog. Sögurnar eru hluti af menningu Djúpavogs og nýttust í hönnun veranna í ELF verkefninu.

YSBF er eistneskt fyrirtæki sem ekki er rekið í hagnaðarskyni. YSBF sérhæfir sig í skapandi tæknilausnum í menntakerfinu. Áherslan er á skapandi hugsun og nýsköpun, miðlun upplýsinga um vísindi og tækni og rannsóknir og þróun hugbúnaðarlausna. YSBF hefur yfir 20 ára reynslu af þróun ýmissa tæknilausna; allt frá einföldum vefsíðum yfir í flókin smáforrit. Áherslan er á að þróa tæknilausnir sem henta nemendum frá 12 ára aldri. YSBF hefur einnig sinnt fullorðinsfræðslu þar sem nemendur hafa verið 60 ára og eldri. YSBF starfar með fjölbreyttum hópi menntastofnana, skóla og íþróttafélaga í Eistlandi.